Sunday, November 28, 2004
Friday, November 26, 2004

Í gær röltum við Skarphéðinn aðeins um bæinn áður en við hittum hana Örju sem við vorum búin að mæla okkur mót við. Hér erum við á Östermalmstorg. Nú er nýjasta nýtt hjá Skarpa að vilja ekki liggja í vagninum - nei, nú má ekki missa af neinu, svo það er heimtað að sitja fram í rauðan dauðan. Svo horfir hann hissa á allt í kringum sig þangað til hann verður rauðeygður af þreytu og dettur út af - hangandi yfir vagnkantinn....

Perlubúðin

Við fórum meðal annars í búð sem selur bara perlur: Pärlshopen, og versluðum smá fyrir næsta prjónaverkefni :-) Skarpi var með svo mikla stæla eitthvað á meðan við vorum að kíkja á varninginn að ég þurfti að biðja Örju um að standa í röðinni og borga fyrir mig á meðan ég hossaði dýrinu!!! (svo sofnaði hann um leið og tókst að plata hann í hossandi lárétta stöðu í vagninum). En já, það var röð til að borga í þessari búð! Ótrúlegt en satt, sérstaklega af því mér sýndist konseptið þarna bara vera: Kaupa venjulegar perlur, sturta þeim í flottar glerkrukkur og selja svíndýrt. Enda var þetta í snobb-bæjarhlutanum Östermalm, sama konsept og í flestum búðum þar.

Thursday, November 25, 2004
Sniglatyppi og Arja

Við Skarphéðinn fórum í heimsókn í dag til Örju Íslandsvinar og Aino Linneu dóttur hennar sem búa í Haninge suður af Stokkhólmi. Þarna erum við að fara að sækja Aino Linneu í skólann, en hún er í finnskum skóla, enda 50% finnsk - þar sem Arja er 100% finnsk.
Við Arja kynntumst þegar við vorum báðar að vinna á Líffræðistofnun Háskóla Íslands fyrir ansi mörgum árum, hún í þanginu sínu, en ég í sniglatyppaskoðun (jamm, those were the days!). Það var rannsókn sem snerist um að rannsaka útbreiðslu ákveðins mengunarefnis sem truflar hormónastarfsemi í lífverum (endocrine disruptor). Í þessu tilfelli var nákuðungur notaður sem mælikvarði á ástandið - og skreið ég um margar fjörurnar á landinu við að safna kvikindunum og rannsaka....! Kven-nákuðungar sem verða fyrir áhrifum af þessu efni (TBT, sem er notað í botnmálningu á skip) brjóta illa/ekki niður karlkynshormónið testósterón og mynda því karlkynfæri = los sniglapenisos. Já, (kk.) sniglar eru með typpi ! (algengasta spurningin sem ég fæ um þetta), stór meiraðsegja. Þurfa að ná yfir í næsta kuðung :-) Og nei, þessi sniglar voru ekki meðlimir í bifhjólasamtökum Íslands (næstalgengasta spurningin) ....

Wednesday, November 24, 2004
Monday, November 22, 2004
Eins og hvert annað hundsbit

Við fórum í 4. skiptið í ungbarnasundið í gær, og á dagskránni var að leyfa grislingunum að prófa að vera í kút, og að finna jafnvægi sjálf o.s.frv. Skarphéðni leist bara vel á það, en líst að öðru leyti svona semi-ágætlega á ungbarnasundið, er oft bara stífur eins og staur í - stað þess að sprikla og busla og kynnast vatninu. Tekur þessu kanski bara eins og hverju öðru hundsbiti...?
Við erum búin að æfa "köfun" í öllum tímunum, en Skarphéðinn kemur alltaf uppúr vatninu jafnhissa, með undrunar- og ásökunarsvip, en fer þó aldrei að væla. Kennarinn sagði við okkur að láta börnin kafa í mesta lagi 6 sinnum í hverjum tíma, en við erum í hræðslupúkafélaginu og köfum bara tvisvar í hverjum tíma....
Ég held semsagt að það verði seint sagt að Skarphéðinn sé "eins og selur". Og pabbi hans sem var svo handviss um að barnið væri með þetta í genunum, enda hann sjálfur mikill sundkappi, minnir reglulega á glæstan sigur sinn í 50 metra bringu í innanhúsmóti 4. deild Ægis árið 1977....
En þetta kemur vonandi með tímanum, ómögulegt annað en að venja barnið við vatn - við með allar þessar fínu sundlaugar á Íslandi!

Friday, November 19, 2004
Thursday, November 18, 2004

Veturinn kom í dag hér í Stokkhólmi, allt í einu, bara si svona. 20 - 30 cm jafnfallinn snjór úti núna. Eins gott að barnavagninn er á torfærudekkjum! Best að fara og kaupa sleða handa Skarphéðni...
Við Skarphéðinn fórum annars í labbitúr í gær með nýja mömmuhópnum okkar. Eins gott að það var í gær og ekki í dag - hefðum nú ekki labbað svo svakalega langt í þessum snjó... Þetta eru 8 - 10 mömmur sem eiga allar börn á aldrinum 4 - 6 mánaða og búa hér í hverfinu. Já, það er víst mikil frjósemi í þessu hverfi, mikið af ungu fólki á barneignaraldri að flytja í öll þessi hús sem er verið að byggja hér. Við löbbuðum mjög skemmtilega leið, í gegnum hverfi og skóg niðrað vatninu Vallentuna sjön. Og fengum svo kaffi og kökur heima hjá einni á eftir, og töluðum um grísina okkar og bleyjur og barnadótarí og hvað maður getur verið eitthvað rosa úti að aka þessa dagana (brjóstaþokan!), um hárlos útaf brjóstagjöfinni ( þær eru að spá í að prófa skallameðalið Regain - ha ha!) o.s.frv. o.s.frv. Mjög gaman. Þessi hópur hittist fyrir utan búðina 1x í viku, fara í göngutúr og svo kaffi heima hjá einhverri. Það er heilsuverndarstöðin sem kemur þessum hópum á og skipuleggur e.k. fræðslufundi með þeim 1 x í mánuði (síðast var t.d. næringarfræðingur), en síðan er undir mömmunum sjálfum komið hvort þær haldi áfram að hittast sjálfar reglulega. Svo hitti ég sumar þeirra líka stundum á babycafé-inu sem er á mánudögum í kirkjunni, opið fyrir alla 0 - 12 mánaða. Þar er sungið saman og svo bara drukkið kaffi og spjallað. Það finnst Skarphéðni vera rosa fjör, augun verða stór eins og undirskálar og hann er svo upptekinn af því að horfa á krakkana og fylgjast með að hann vill ekki sjá mömmu sína!!!

Monday, November 15, 2004

Farsdag (pabbadagurinn) var í gær sunnudag, og Skarphéðinn og Hrefna vildu gefa Frey eitthvað spes í tilefni dagsins, eitthvað svenskt.... Fyrir valinu varð "Sverigelottenkalsongerna". Sem eru naríur í fánalitunum og 4 skafmiðar (naríurnar fylgja sko með ef maður kaupir 4 miða)!!!! hi hi hi.... Um að gera að fá sér smjörþef af hinni miklu spilasýki sem tröllríður öllu hér í formi skafmiða og lottóa og spila og kapp/veðreiða og þess háttar. Og Freyr varð líka bara frekar glaður þegar hann skóf fram 100 Skr. vinning á einum miðanum !
Ekki var verra að nærbrækurnar getur Skarphéðinn notað sem ágætis ábreiðu yfir sig á köldum dögum (sjá mynd). Nú eða svo mætti jafnvel nota þær sem dúk á borðstofuborðið þegar mikið liggur við sýnist mér....

Saturday, November 13, 2004
Nokkrar lykkjur frá afa

Ég fór á prjónakaffi í garnbúðinni Trassel í dag - eins og stundum á laugardögum. Þar voru mættar konur af öllum stærðum og gerðum, aðallega þó konur "á besta aldri". Skarphéðinn svaf útí vagni heima á meðan. "Ha, skildirðu hann einan eftir!?" sagði mamma við mig þegar ég tjáði henni þetta. "Nei, hann á nú föður - faktískt". Skarphéðinn fær kanski að koma með þegar hann hefur lært að fitja upp..... :-)
Afi hans Skarphéðins og nafni prjónaði annars mikið þegar hann var ungur heima hjá ömmu og afa á Skálará í Keldudalnum, eins og ætlast var til af öllu heimilisfólkinu á þeim tíma. Og þegar hann svo (mörgum árum seinna) átti von á sínu fyrsta barni - yfir sig spenntur - gerði hann sér lítið fyrir og prjónaði litla hvíta peysu, mjög fallega, útprjónaða yfir brjóstið, hneppta að framan. Sú peysa hangir nú innrömuð uppi á vegg hjá eigandanum, honum Össuri.
Þegar ég var heima á Íslandi í febrúar síðastliðnum ólétt, var ég að prjóna bakið á barnapeysu með einföldu garðaprjóni. Eitt kvöldið sat ég í stofunni við hliðina á pabba og fer eitthvað að tala við hann um prjónamennsku og spyr svo hvort hann kunni enn að prjóna núna, 87 ára gamall. Þá tekur hann í prjónana hjá mér og prjónar nokkrar lykkjur - ótrúlega fimlega! Orðinn mállaus og illa farinn eftir heilablóðfall, en stoltur sýndi hann mér að hann kunni nú enn handtökin við prjónana! Eitt af því sem ekki varð frá honum tekið við áfallið. Þetta hugsa ég oft um þegar ég strýk yfir bakið á Skarphéðni litla í garðaprjónspeysunni. Nokkrar lykkjur frá afa.

Monday, November 08, 2004
Sunday, November 07, 2004

Skarphéðinn er byrjaður í ungbarnasundi! Fór í annað skiptiðí dag, og er rosa duglegur. Hann er nú mest hissa á þessu öllu saman. Í dag fóru börnin í fyrsta skiptið alveg í kaf (!) Mömmu og pabba fannst það nú soldið scary, en Skarphéðinn var með sama spurnarsvipinn á sér allan tímann, horfði bara í kringum sig hissa með augun full af vatni: "Hvað er í gangi!?" (fattaði ekkert að blikka!!!) :-)

Thursday, November 04, 2004

Jamm, þá erum við Skarphéðinn komin aftur heim eftir húsmæðraorlof á Íslandi, þar sem við vorum að sýna okkur og sjá aðra alla daga. Það var ofsalega gaman hjá okkur!
Við eyddum miklum tíma með Erlu og Veru litlu frænku sem er jafngömul og Skarphéðinn (bara 2 vikum yngri!) og sést hér á myndinni með Skarpa. T.d. á kaffihúsum, á rölti á Laugaveginum, í sundi, við tjörnina, í föndurbúðum, við ullarþæfingu, í bíltúrum, við matarát o.fl. o.fl. - fyrir utan allar brjóstagjafirnar og bleyjuskiptingarnar og það allt....! Svo vorum við nú líka bara mikið í afslappelsi á Kleppsveginum hjá mömmu/ömmu Völu.
Rosa gaman. Hér eru myndir frá Íslandsferðinni fyrir þá sem vilja skoða. Það var nú soldið erfitt að velja nokkrar myndir af þeim 250 sem ég tók !!! Já, ég veit ekki hvort þessar stafrænu myndavélar séu blessun eða bölvun....
