Saturday, November 13, 2004

Nokkrar lykkjur frá afa


Ég fór á prjónakaffi í garnbúðinni Trassel í dag - eins og stundum á laugardögum. Þar voru mættar konur af öllum stærðum og gerðum, aðallega þó konur "á besta aldri". Skarphéðinn svaf útí vagni heima á meðan. "Ha, skildirðu hann einan eftir!?" sagði mamma við mig þegar ég tjáði henni þetta. "Nei, hann á nú föður - faktískt". Skarphéðinn fær kanski að koma með þegar hann hefur lært að fitja upp..... :-)

Afi hans Skarphéðins og nafni prjónaði annars mikið þegar hann var ungur heima hjá ömmu og afa á Skálará í Keldudalnum, eins og ætlast var til af öllu heimilisfólkinu á þeim tíma. Og þegar hann svo (mörgum árum seinna) átti von á sínu fyrsta barni - yfir sig spenntur - gerði hann sér lítið fyrir og prjónaði litla hvíta peysu, mjög fallega, útprjónaða yfir brjóstið, hneppta að framan. Sú peysa hangir nú innrömuð uppi á vegg hjá eigandanum, honum Össuri.

Þegar ég var heima á Íslandi í febrúar síðastliðnum ólétt, var ég að prjóna bakið á barnapeysu með einföldu garðaprjóni. Eitt kvöldið sat ég í stofunni við hliðina á pabba og fer eitthvað að tala við hann um prjónamennsku og spyr svo hvort hann kunni enn að prjóna núna, 87 ára gamall. Þá tekur hann í prjónana hjá mér og prjónar nokkrar lykkjur - ótrúlega fimlega! Orðinn mállaus og illa farinn eftir heilablóðfall, en stoltur sýndi hann mér að hann kunni nú enn handtökin við prjónana! Eitt af því sem ekki varð frá honum tekið við áfallið. Þetta hugsa ég oft um þegar ég strýk yfir bakið á Skarphéðni litla í garðaprjónspeysunni. Nokkrar lykkjur frá afa.
Posted by Hello

3 Comments:

Blogger Erla said...

Hva, ertu ekki búin að kenna Skarpa að fitja upp??! hahahahaha... fyndið, sé hann fyrir mér 2 ára að prjóna... þetta er náttlega sikk :)

11:33 pm  
Blogger Erla said...

Oh, fór nú bara að grenja þegar ég las um lykkjurnar frá afa... sakna kallsins.

8:49 pm  
Blogger Halldóra said...

Jamm, sakna hans líka...

Talandi um að byrja snemma að prjóna, þá var það víst þannig í den að börnum var kennt að prjóna mjög ungum, og áttu t.d. jafnvel frá átta ára aldri "að skila tvennum sjóvettlingum á viku og síðan meira eftir því sem þau eltust og þjálfuðust við verkið". (Úr greininni "Um prjón á Íslandi" í Hugur og hönd).
ÞAÐ er náttlega sikk !!!

10:35 pm  

Post a Comment

<< Home