Saturday, May 31, 2008

Skerjagarðsferð

Deginum eyddum við með Sóley og Guðjóni í Skerjagarðinum (í lánshúsi og á lánsbát). Sól, sjór, bátalíf, strandir, matur og huggulegheit.... Meiriháttar gaman.

Strákunum (köllunum) fannst gaman að fara hratt á bátnum, en okkur Sóley þótti verra að þurfa að halda í handleggi og kjólfalda og ökkla á krökkunum til að þau myndu ekki fjúka útbyrðis í stað þess að njóta útsýnisins, og báðum þá því um miskunn. Það var soldið erfitt, sérstaklega þegar aðrir bátar voru að taka fram úr - og af þeim var nóg, bullandi bátatraffík útum allt.

Skarphéðinn var alveg viss um að við værum í útlöndum því um kvöldið þegar við sögðumst þurfa að fara heim sagði hann: "Ha ? Til Svíþjóðar". Greyið hélt líklegast að við værum flutt til Paradísar.

Guðjón átti einmitt afmæli þennan dag. Við bíðum spennt eftir næsta afmæli þegar hann verður 40 ára, þá verðum við örugglega sótt í þyrlu, eða í loftbelg - að minnsta kosti.



















Friday, May 30, 2008

Frí á leikskólanum og afmæli

Í dag var lokað á leikskólanum, en Skarphéðinn var alveg sáttur við það, því við fórum í 4ra ára afmæli til Elíasar í staðinn.







Thursday, May 29, 2008

Hrefna og hálfsystkinin 7 !

Já, hún Hrefna á stóra fjölskyldu. Hér er mynd af hálfsystkinum hennar 7 (!!!!), sem eru 11 ára til 3ja mánaða. Tvö yngstu eru dætur Bigga og Noreu, þær Agnes Marta (1.5 árs) og Lilja María (3ja mán). Þriðji frá hægri er Leo (5 ára), sonur Noreu frá fyrra sambandi. Skarphéðinn (bráðum 4ra) situr við hægri hlið Hrefnu, og svo eru þeir bræður og synir Bigga og fyrrverandu frú (Brittu); Bjarki (9) og Trausti (11) á sitthvorum sófakantinum og Kristján (7) við vinstri hlið Hrefnu.
Á myndina vantar bara Dömuna.


Wednesday, May 28, 2008

Hrefna stúdent - vá !

Já VÁ því þetta var svo flottur dagur, og merkilegur, og hátíðlegur, og ótrúlegur eitthvað ....

Mamman trúir varla að hún Hrefna "litla" sé orðin stúdent!! Finnst einsog það hafi verið í hitteðfyrra eða árið þar á undan sem hún tók myndina af henni sem er á stúdentsplakatinu - en þá var hún 4ra ára.

En það var allavega haldið uppá daginn með pompi og pragt í yndislegu veðri.

Hefðin er s.s. sú að ættingjar og vinir bíða fyrir utan skólann eftir því að stúdentarnir nýbökuðu ”hlaupi út”. Þeir eru inni í skólanum og taka þátt í hátíðarseremóníu, setja upp húfurnar, borða saman hádegismat, koma svo út á tröppur og syngja og hlusta á smá ræðuhöld. Hlaupa síðan til ættingja og vina sem bíða fyrir utan með spjöld með mynd af þeim frá því þau voru lítil.

Svo keyra krakkarnir um á skreyttum vörubílum með músík og látum, síðan er veisla og matur heima, og loks partý og fjör í bænum.

Þetta var æðislegur dagur…. Sólríkur og heitur…. og allir krakkarnir voru svo fínir og glaðir og foreldrarnir svo stoltir og ánægðir og hrærðir og allir í hátíðarskapi og…. frábært.

Frökenin var sjálf mjög ánægð með daginn, sagði að þetta hefði verið ”Besti dagurinn í lífinu” ….:-)

Dagens nyheter birti smá grein um þessa fyrstu stúdenta vorsins, þar er vitnað í "Hrefla Birgisdottir" - reyndar ekki útaf framúrskarandi árangri - heldur varðandi partýplön eftir stúdentinn... Stúdínan kom því ss.á framfæri að "bærinn verður óöruggur í kvöld" - sko því allir stúdentarnir verða þar á ferð að fagna.

Þegar frökenin var að opna gjafirnar seinna um daginn í tilefni áfangans hafði hún orð á því "að hún ætti þetta faktískt allt saman vel skilið, því hún væri búin að vera svo dugleg í skólanum"..... :-) En mamman er alveg sammála, því hún fékk hæstu einkunn MVG (mycket väl godkännt) í 27 fögum af 32 = Mycket bra !

Í haust er hún svo búin að skrá sig í Háskólann í Linköping (sem er í ca. 2.5 tíma keyrslu-fjarlægð f. sunnan Stokkhólm), í sams konar nám og hún var í, eða grafíska hönnun, fjölmiðlun o.þ.h.

























Sena úr stúdentsveislu

Hrefnu fannst nú ekki leiðinlegt að opna gjafirnar í tilefni stúdentsprófsins.... :-)
Hér opnar hún pakkann frá pabba sínum og fjölskyldu.
(Þessi sena er reyndar mest á sænsku).

Sunday, May 25, 2008

9. júlí it is.

Í sambandi við fréttir af Dömunni, þá er bara allt gott að frétta.
Hún minnir reglulega á sig með spörkum og brölti, auk þess sem hún hikstar reglulega, og stækkar einsog vera ber (einsog á bollunni má sjá).

Hún verður tekin með keisaraskurði þann 9.júlí n.k., þannig að það fer að fara að fara að styttast í það.

Svíarnir eru jú svo skipulagðir, með allt á hreinu og kerfi yfir allt. Nú eru skipulagðir keisaraskurðir sko á sér deild hérna á Danderyd sjúkrahúsinu (!), skorið mánu-, þriðju-, og miðvikudaga, og allir heim fyrir helgina. Förstföderskor = Mömmur með fyrsta barn eru skornar á mánudögum (líklegast svo þær hafi vikuna til að jafna sig og koma brjóstagjöf í gang o.s.frv.), og aðrar mömmur á þriðju- og miðvikudögum. Á fimmtudögum er svo námskeið fyrir þá foreldra sem eru að koma í keisara vikuna á eftir. Á föstudögum eru allir útskrifaðir og deildinni lokað fyrir helgina - gúddbæ.
= Svaka skipulag.

Áætlaður fæðingartími Dömunnar er 14.júlí, þannig að læknirinn sem við töluðum við á Danderyd fletti í dagatalinu og sagði: 7.júlí ætti það að vera skv. nýju reglunum um 7 daga fyrir áætlaða fæðingu (áður - og með Skarphéðinn var það 10-14 dagar), en það er mánudagur og þá tökum við bara förstföderskor, þannig að ég athuga með 8. Júlí…… (afmælisdag Skarpa!). Við Freyr vorum að spá í hvort við ættum bara að ”láta þetta hafa sinn gang” og ekki vera að skipta okkur af hvaða dagur verði valinn, en svo nefndum við það.... Þannig að læknirinn athugaði með 9. júlí, og skráði okkur svo á þann dag – þannig að….. 9. júlí it is.
Nema hún komi fyrr. Þá verður keisarinn gerður fyrr, en á annarri deild.


Mamman er bara spræk - miðað við konu á miðjum aldri með ca. 13 kílóa bakpoka framan á sér fullan af spriklandi kettlingum - eða þannig er tilfinningin stundum. Blæs reyndar einsog hvalur við minnstu áreynslu, einsog að koma mér í skóna, tala í símann eða ég tala nú ekki um að dröslast uppá aðra hæð (þangað fer ég helst ekki nema tilneydd - liggur við :-)!!!). Og er soldið lúin sona almennt, sem er kannski ekki skrítið - prófiði sjálf að dröslast með poka af 13 kílóum (t.d. 13 mjólkurlítrar) útum allt í einn dag.... fyrir utan það að einhver annar er að nota allt súrefnið, næringuna, próteinin, steinefnin og annað sem ég er allan daginn að viða að mér... (reyndar er allt nammiátið að skila sér í smá undirhöku og fleira - en hei, alltaf gott að hafa smá forða).
Svo sefur maður illa, getur jú ekki legið á maganum, og ekki á bakinu (þá fær maður köfnunartilfinningu af þyngslunum sem einsog stöðva hérumbil blóðflæðið uppí hausinn = not good). Þannig að næturnar fara í það (á milli klósettferða, því það er jú ekki svo mikið blöðrupláss lengur) að velta sér af einni hlið á aðra - sem er freeekar þreytandi, held ég sé komin með hælsæri á báðar mjaðmir af of miklum og þungum hliðarlegum....

En.... ég kvarta ekki (ekki svo rosa mikið allavega). Finnst bumban frábær og ótrúlega magnað fyrirbæri. Hugsa alltaf þegar ég sé hlunkinn mig í spegli: Vá!!! DJÖ er þetta magnað !!!
Mjög spes tími.
:-)

Skarphéðinn knúsar bumbuna reglulega og talar oft um litlu systur og allt sem hann ætlar að hjálpa henni með "af því hún er svo lítil og kann ekki neitt". Hann ætlar að passa hana útá róló, hjálpa henni uppí sófann, hjálpa henni að bursta tennurnar, og bara neim it - he will be there to take care of things. Samkvæmt honum sjálfum. Hrikalega krúttlegur!! Þannig að fyrirætlanirnar eru allavega góðar...... Svo kemur hann hlaupandi með lítil föt í búðunum og vill kaupa handa litlu systur, Oooooo - dúllan. Í dag kom hann með hrikalega dúllulega skó í HM sem ég var alveg næstum búin að kaupa... af því bara. En rétt náði að hemja mig og lét þá hverfa áður en við komum að kassanum - og vona bara að hann fatti ekki að spyrja um það seinna. Svo kom hann með pínulítinn rósóttan hárbursta, en þá útskýrði ég að hún væri sko ekki með svo mikið hár, þannig að það þyrfti líklegast ekki að hafa áhyggjur af því að greiða úr því flækjurnar amk. fyrsta árið... og hann lét það gott heita.

Friday, May 23, 2008

Ha ha ha....

Ég rakst á þessa bráðskemmtilegu síðu um verstu plötualbúm sögunnar, á vafri mínu um veraldarvefinn. Upp í hugann kemur: Hvað er þetta fólk eiginlega að hugsa?!!?
Einsog þetta hérna fyrir neðan. JesúsPétur.

Thursday, May 22, 2008

Lunch í Ulriksdal

Mamman fór með Örju í hádegismat í Ulriksdals trädgårdscafé. Mjög gott grænmetishlaðborð, skemmtilegt gróðurhús og verslun.
Við Arja hittumst svo sjaldan þannig að það var skipst á gjöfum fyrir árið (lá við!); afmæli, fæðingar o.s.frv. gjafir...
Arja tók þessa mynd af bolluni með símanum sínum.

Þegar ég kom í leikskólann að sækja Skarphéðinn sagði ein stelpan við mig: "Vilken fin klänning du har" - en hvað þú ert í fínum kjól. Algjör dúlla og týpísk stelpa. Ekki dytti Skarphéðni í hug að láta svona útúr sér :-), enda ekkert flott sem ekki er með löggumerki eða hauskúpu.

Þetta var k rúttlegra en hvað lítill strákur sagði við mig þegar ég var í sundi með Skarphéðni um síðustu helgi... Hann var ca. 6 ára og sat í gufubaðinu með okkur Skarphéðni og sagði við mig:
- Ertu með barn í maganum?
- Já sagði ég stolt.
- Ég veit hvað þú hefur gert!
- Jæja, er það já sagði ég og bjó mig undir að standa upp og draga Skarphéðinn með mér út áður en ég þyrfti að hlusta á .... ég veit ekki hvað.
-Þú ert búinn að knúsa pabbann rosalega fast, hélt sá stutti áfram.
Þetta virtist nokkuð sakleysislegt svo ég var jafnvel að spá í að setjast aftur, en þá hélt hann áfram og fór að benda á tippið á sér:
- og þá fór sko úr tippinu og inní magann og....

Alltí læ, bless.....



Saturday, May 17, 2008

Vernissage

Við familían fórum á smá sýningu í Vallentunasalen um helgina. Á silfursmíðuðum gripum frá þátttakendum á silfursmíða námskeiðum vetrarins. Hér má sjá Halldora Skarp Hedinsdottir standa við eitthvað af verkum sínum... :-)




Skarphéðinn á fullu... í Vallentuna centrum

Leiðinlegt á sýningum, gaman að hlaupa, hoppa, príla, og fíflast.....









Monday, May 12, 2008

Stúdínan

Það styttist í að Hrefna klári stúdentinn (!), er að klára síðasta árið í menntó.
"Mösspåtagning" er seremónía þar sem stúdentshúfurnar eru settar upp við hátíðlegar tilfæringar. Bekkurinn hennar Hrefnu fór með kennurum og rektor í siglingu um skerjagarðinn á bát þar sem innbyrtur var síðdegisverður og húfurnar settar upp - og svo var festað áfram í landi fram eftir kveldi. Hér er Hrefna fyrir miðju með bekkjarsystrunum og samstúdínunum Angelicu og Emmu.

Fleiri myndir frá þessu má sjá hér. Allt dokumenterað að hætti Hrefnu; frá því hist var við skólann, labbað í lestina, lestarferðin, báturinn, maturinn, húfurnar... o.s.frv....

Sjálf útskriftin verður 28.maí, allir eru velkomnir að samfagna :-).


Sunday, May 11, 2008

Sunnudagsbíltúr



















Saturday, May 10, 2008

Vökvi vökvi vökvi....