Monday, October 29, 2007

Ný gleraugu

Mamman er búin að fá ný gleraugu. Já, það er sko í frásögur færandi, því gömlu eru búin að vera í notkun sl. 8 ár. Þessi voru keypt á netinu ! Hjá www.favoptic.se, og kostuðu heilar 550SEK (eitthvað um 5500ISK) - með "anti-reflex" viðbót. Þar velur maður umgjörðir af myndum og fær send 4 í einu heim sem maður fær að prófa í ró og næði - en ekki í búð með Skarphéðinn fiktandi í 10.000kr umgjörðum, og hlaupandi út úr búðinni eða liggjandi í gólfinu, eða dreifandi rúsínum um svæðið - eða einsog einu sinni: pissaði óvart á sig í gleraugnabúðinni í Vallentuna centrum !! svo dágóður lækur fór að seitla eftir gólfinu - ég hef ekki komið þangað inn síðan....
Allavega, maður prófar bara eins margar umgjörðir og maður vill (en bara 4 í einu) og sendir svo til baka - enginn sendingarkostnaður á neinu. Svo þegar maður er búinn að velja umgjörð sendir maður inn gleraugnarecept - og gleraugun birtast í póstkassanum um viku síðar.
Brilljant!

Þessi gleraugu eru ansi ólík hinum, miklu ferkantaðri og dekkri - mamman er bara einsog ný kona. Og gæti nú verið ruglað saman við Endurskoðanda, eða Hönnuð (best að muna að vera með nýju gleraugun þegar ég fer með Hönnunina í Designtorgið næst.... :-) ).

En, í kaupbæti með nýju gleraugunum fékk ég: ryk og drullu heima hjá mér - og hrukkur og fínar línur í andlitið....! I kid you not. Þar sem ég áður hef vaðið um hamingjusamlega í villu og svíma er bara ryk og drulla núna, og hvaða kellíng er þetta í speglinum....!
Uss.





Er ekki kominn tími á að stjarna þessa bloggs fái að lýsa hér....!?

Ég held nú það. Hér koma myndir frá kubba-aktíviteti helgarinnar.
Fleiri helgar-aktívitet voru: Fjölmenn pönnukökuveisla hjá Hilmi Viktor og foreldrum hans í Kista, Mjög gaman. Nema hvað Skarphéðinn var Þvílíkt úrillur fyrsta klukkutímann, líklegast eftir að hafa sofnað í 10 mín í bílnum...! Sama gerðist um daginn í barnaafmæli, þá var mamman alvarlega að íhuga að yfirgefa svæðið því, nærvera okkar var ekki neinum til gleði - og allra síst mömmunni. Þá veit maður það; ekki stutta blundi seinni partinn, það verður bara að geðvonsku-blundi....

Allavega, svo fórum við líka á barnaleikrit. Fengum að fylgjast með einum degi í lífi músanna í músaslökkviliðinu :-). Skarphéðinn var ansi hissa á því öllu, en fannst samt gaman. Sat kjur í ca. 40 af þeim 50 mínútum sem sýningin stóð.




Saturday, October 27, 2007

Vistvænt nammi gott....

Jæja, þá er Skarphéðinn og við hin orðin aðeins "ekológískari". Búin að panta áskrift hjá Årstiderna. En þeirra viðskiptahugmynd er: "Við fyllum körfu af ekologiskt ræktuðu grænmeti og ávöxtum árstíðarinnar og sendum beint heim að dyrum til þín".

Þannig að nú fáum við sendan kassa heim aðra hverja viku (maður ræður hversu oft í mánuði) með ekológískt ræktuðu grænmeti, ávöxtum og fleiru. Fyrir valinu varð "Singellådan", aðallega af því í henni er ekki bara grænmeti og ávextir heldur líka kex og pasta og súkkulaði og svoleiðis.... :-)
Nammi - spennó - hollt - nýtt - prófa - gaman.....

Erla-Perla

Hún Erla frænka mín er starfsnemi núna í 6 mánuði hjá Þróunarsamvinnustofnun Íslands í Níkaragúa. Og bloggar um það sem á daga hennar drífur og það fólk sem á vegi hennar verður. Það er mjög fróðlegt, og lærdómsríkt. Og oft sorglegt. Og maður lærir að meta það sem maður hefur, hérna megin á jarðarkringlunni.

Erla setti af stað peningasöfnun þar sem þeir sem lesa bloggið hennar og hafa fengið að "kynnast" fólkinu sem hún hittir og bloggar um geta gefið smá pening (1000Iskr á mann eða meira) sem Erla notar í sérstök verkefni handa þeim sem vantar eitthvað. Kíkiði á bloggið hennar í dag (27.okt) og lesiði um Edine. Það snerti mig.... Hér er Erlublogg.

Friday, October 19, 2007

Sætasta stórasystirin

Hrefna var í myndatöku í skólanum. Næsta myndataka verður svo með hvítu húfuna í vor; stúdentsmyndin (!!).
Á hálsmeninu hennar stendur "Per". Per er að sjálfsögðu með ígrafið "Hrefna" á alveg eins hálsmeni.... :-)

Skarphéðni og okkur hinum finnst þetta vera sætasta stórasystirin.

Thursday, October 18, 2007

Sólblómin já.

Hin seinþroska og risavöxnu sólblóm í garðinum hjá okkur hafa nú sungið sitt síðasta. Freyr gekk nefnilega út í (öl)æði fyrir stuttu og hjó þau niður með sveðju, fannst nóg komið af þessu "djóki". Enda hafði komið næturfrost, og þau voru farin að lýjast, og farin að sveiflast í 3m radíusa í smá golu = orðin hættuleg sjálfu sér og umhverfi sínu. Freyr ákvað því að veita þeim náðarhöggið. Hræin liggja enn útí garði, ætli við þurfum ekki að hringja á bíl til að láta fjarlægja þau...

Hausinn á sumum var orðinn á stærð við klósettsetu - einsog vinnufélagi minn komst svo skemmtilega að orði.... Og stöngullinn einsog á fullvaxinni birkihríslu í rokrassgati á Íslandi - einsog sést á myndinni þar sem ég held utanum einn stöngulinn.






Tuesday, October 16, 2007

Frúin orðin (viðurkenndur) Hönnuður.

Hér er svona eitthvað til að létta ykkur lundina á meðan þið bíðið spennt eftir nýjum myndum af Skarphéðni og okkur hinum; YMCA á finnsku. Það hlýtur að lyftast amk. annað munnvikið ykkur við þetta.... :-)

Annars bara allt gott að frétta hérna megin.
Mamman á heimilinu er núna orðin virtur Hönnuður hjá Designtorginu hér í borg - sko ásamt því að vera starfandi vísindakona í mengunarrannsóknum á sjávarlífverum, í háskólanum. Sendi inn eyrnalokka úr (silfri, hrauni, kristall, ull og fleiru), sem þeir hafa áhuga á að selja, svo þeir eru í prufusölu næstu 4 vikurnar í 3 af búðunum þeirra.
:-).