Thursday, November 30, 2006

Bókasafnsferð,,,,,
















Við förum stundum á bókasafnið í Vallentuna centrum til að fá lánaðar barnabækur. Það finnst Skarphéðni mjög gaman, enda mikill bókaormur.

Wednesday, November 29, 2006

Fyrsta heimsóknin á hárgreiðslustofu...





















Skarphéðinn hefur hingað til bara verið klipptur af mömmunni - greyið. En fór nú í fyrsta skiptið á hárgreiðslustofu (svaka skutla í mínipilsi sem var að vinna þar ;-) ) til að fá e.k. "línu" í það litla hár sem hann hefur. Það gekk vel að sitja kyrr og láta klippa sig o.s.frv. - enda fékk hann að hafa sleikjó á meðan þessu stóð.... ;-)

Saturday, November 25, 2006

Það er víst töff að prjóna....!!























Ha ha ha..... þessi er góður! Upp í hugann kemur titill ferskasta prjónabloggsins hér í borg, bloggið hennar Röggu sköpunarglöðu; Það er víst töff að prjóna !

Monday, November 20, 2006

Húsmæðraorlof









Mikið er nú gott að eiga vinkonur sem koma og sjá til þess að maður fari í "húsmæðraorlof". En þær Hella og Unnur komu í heimsókn frá Íslandi um helgina - það var meiriháttar gaman!!


Því miður náðust ekki myndir af þeim með aðalperesónu þessa bloggs - Skarphéðni (vegna anna). (Og ekki heldur án glasa í hendi).

Wednesday, November 15, 2006

Snjórinn kom - og fór.
















Svo við höfum enn smá frest til að kaupa snjóþotu (sú gamla er ónýt).
Svo við leikum með annað í staðinn. Spýtur og svona sem við finnum ;-)

Tuesday, November 14, 2006

Við erum víst umhverfisvæn

















Þessar umbúðir eru gott dæmi um góða markaðssetningu.... Mamman bara búin að kaupa hálfa framleiðslulínuna hjá hippafyrirtækinu Saltå kvarn. sem er í Järna, hippabæ Svíþjóðar. Af lífrænum baunum (!) Því pakkarnir eru svo glaðlegir og skemmtilegir!!!
Þetta fyrirtæki byrjaði sem lífrænt bakarí fyrir löngu, keypti síðan gömlu hveitimölunarmyllu bæjarins og fór að mala eigið hveiti og korn til að selja og baka úr. Kornið er malað á gamaldagshátt á steini, brauðið er hnoðað í höndunum, og ofnarnir hitaðir með birkitrjám, en aðallega með hafrahýði!!! Sem kemur algjörlega í staðinn fyrir olíu og rafmagn hjá þeim, og lækkar koltvísýringslosun um 2 tonn á ári.
Vá, umhverfisvænt eða hvað.

Ég hef oft keypt lífrænt brauð frá þeim (sem er nammi gott), og farið á bakaríið/kaffihúsið þeirra ef ég á leið um Järna. Mottóið þeirra er: "Af því sem náttúran gefur. Einungis."
Svo hef ég líka oft farið í kaffihúsið í Kulturhúsinu þar, allt líka útúr lífrænt í gegn þar.

Svo eru þau semsagt komin útí baunasölu líka. Og það er nú aldeilis gott að vita af þessari allri hollustu inní skáp heima hjá sér, lífrænt ræktað og Krav merkt og ég veit ekki hvað. Það má taka þetta fram reglulega og horfa á litina og hugsa um alla hollustuna, og umhverfisvitundina á bakvið þetta allt, sem er nú aldeilis gott að einhver er að hugsa um á þessum síðustu og verstu.
Og svo jafnvel elda eitthvað gott úr þessu ;-)

Sunday, November 05, 2006

Krakkalakkar....



















Guðrún Lóa og Ragga mamma hennar kíktu við í dag. Til að prjóna, og til að leika með Skarphéðni. Mjög gaman.
























Hér eru aðrir vinsælir gestir; Íris og Sara, en þær kíkja líka reglulega á okkur.

Friday, November 03, 2006

Vetur!





















Veturinn kom á miðvikudaginn - með látum; snjókomu, hálku roki og veseni. Allt stopp niðrí bæ, og meirað segja lestirnar líka. Skrítið hvað fólk getur verið eitthvað óviðbúið vetrinum, hann hefur komið árlega svo lengi sem ég man.... Nema sum árin virðist hann reyndar fara framhjá Íslandi.

En Skarphéðni finnst nú ekki leiðinlegt að vera búinn að fá snjóinn !


Thursday, November 02, 2006

Bleyju- og reykingabindindi



Hér eru bæði börnin mín, svo falleg og fín....
Það má segja að þau séu a nokkuð mismunandi þroskastigi, annað þeirra er að hætta að reykja, en hitt að hætta með bleyju.
:-)
Enda 15,5 ár á milli þeirra.


Húfuna og kragann prjónaði og heklaði mamman nýlega. Enda farið að kólna hér í borg.

Það er haustleyfi í skólanum hjá Hrefnu, og hún brá sér með Frey í nokkra daga ferð til Glasgow. En nú eru 10 ár síðan Freysi kallinn bjó þar í eitt ár þegar hann var í MBA náminu. Og fór Hrefna virkilega án kærastans Per ? Já ótrúlegt en satt. En hann fór með félögum sínum með ferju til Tallin í Eistlandi hérna hinu megin við Eystrasaltið.

Wednesday, November 01, 2006

Hættur að sofa úti í vagni!!!


Jæja, þá er Skarphéðinn orðinn stóri strákurinn.... Hættur að sofa útí vagni á daginn á leikskólanum. Og ástæðan; hann er orðinn svo stór (enda 2ja ára og 4ra mánaða) að hann kemst varla fyrir í vaginum!

Á mánudaginn var orðið svo kalt að hann fór í fyrsta skiptið í úlpunni út á leikskóla (hefur hingað til bara verið í flíspeysu og þunnum jakka), og þá var hann bara svo dúðaður eitthvað að það hefði verið erfitt að festa vagnebeislið á hann ! Þannig að hann byrjaði þá að sofa inni með hinum krökkunum, sem hafa gert það frá í haust. Það var nú aðallega bara sérviska í mömmunni að heimta að láta hann sofa úti ennþá "af því það er svo gott fyrir börnin". Pabbinn spurði á hverjum morgni; "Eigum við ekki að fara að láta hann sofa inni með honum krökkunum? Í hlýjunni og svona." En mamman hélt nú ekki, það er sko ekki gert á Íslandi. "En heldurðu ekki að honum finnist hann vera útundan að sofa einn úti, og verði svo bara strítt á því ?" hélt pabbinn áfram." Mamman hló nú bara að þessu.

En nú er Skarphéðinn semsagt hættur að sofa úti í vagninum - nema um helgar þegar hann er heima, þá látum við hann í vagninn óbundinn, fylgjumst bara vel með honum.

En drengurinn var sko ekki á því að leggja sig inni á leikskólanum fyrstu skiptin. Fyrsta daginn neitaði hann algjörlega að leggjast á dýnuna eins og hinir krakkarnir, og það endaði með því að hann fékk smá lúr í vagninum sínum, inni, frammi á gangi. Næsta dag vildi hann heldur ekki sofa inni, en fékkst þó að sitja á hnjánum á henni Petru fóstru, og sofnaði þá í fanginu á henni. En daginn eftir það fékkst hann til að leggja sig og sofnaði smá stund á dýnunni með hinum ormunum.... Og þetta mun svo líklegast ganga vel héðan í frá.

Önnur saga er svo að hann er næstum því að verða of stór til að leggja sig á daginn yfir höfuð. Því hann liggur og byltir sér í klukkutíma á kvöldin og getur ekki sofnað einsog áður - er bara ekki svo þreyttur. Lúrnum að deginum til er semsagt aaaaðeins ofaukið. Þó hann fái bara að sofa í 30 -45 mín núna á daginn. Þannig að hann sofnar seint á kvöldin, og er þá þreyttur á morgnana líka þegar hann á að vakna og fara í leikskólann. En hann er samt of lítill til að sleppa því alveg að leggja sig á daginn, því þá myndi hann nú bara sofna oní kvöldmatinn.