Thursday, October 30, 2008

Allraheilagramessa nálgast

Já, allraheilagramessa nálgast, en þá er hinna framliðnu minnst, farið með kerti eða blóm í kirkjugarðinn til dæmis. Og Skarphéðinn er að sjálfsögðu búinn að fá sér viðeigandi klæðnað í tilefni af því - sem óspart er mátaður: " Mamma, má ég fara í beinagrindina þegar við komum heim.....?"

Og svo fara líka ýmsar kynjaverur á stjá á þessum tíma og gera vart við sig. Krakkarnir klæða sig upp sem afturgöngur eða nornir og álíka, ganga á milli húsa og sníkja nammi: Bus eller godis! (Trick or treat). Skarphéðinn á ekki til orð yfir það; krakkarnir bara dingla og fá afhent nammi möglunarlaust....!!!!???
Vá.

Um helgina ætla Skarphéðinn og pabbi svo að fara á spúkíball hjá Íslendingafélaginu - að sjálfsögðu báðir í búning.

Ég er so lítil snúlla....



...að ég er bara böðuð í þvottahúsvaskinum.

Tuesday, October 28, 2008

Unnur Freysson

Já, Unnur er ekki Freysdóttir heldur Freysson (við eigum enn í "viðræðum" við Skatteverket útaf þessu. Ekki hægt að fá passa eða panta farmiða eða neitt fyrir dömuna fyrr en þetta kemst á hreint!).

Og svo er hún líka á fullu í fyrirsætustörfunum eins og nafna hennar Steinsson :-). Sjáiði bara þetta fína fréttabréf frá henni Lóu í Ecoloco, aðal fyrirsætuna er að finna undir "Natti natt".

Og nú er hægt að panta og fá þessi frábæru ekológísku barnaföt líka til Íslands. Það er því miður ótæpilegt magn af alls konar óheppilegum efnum notað við framleiðslu á barnafötum (og öðrum fötum) - en ekki ekológísku fötunum hennar Lóu :-), þar geturðu verið viss um að þú fáir bara væn efni til að hafa á snúllunni þinni. Og tekur þátt í að minna af eiturefnum sé notað og dreift í umhverfið.

check it out!

Monday, October 27, 2008

Meira daglegt brauð

Sófahangs.







Sunday, October 26, 2008

Hið daglega brauð

Mamman sækir Skarphéðinn á leikskólann kl. 14 eða 15, og þá förum við á róló - nóg er af þeim í hverfinu - eða útí búð.






Wednesday, October 22, 2008

Ammæli

Freyr átti afmæli í gær. Svo það var eldaður góður matur og prinsessuterta í eftirrétt - og afmælissöngurinn tekinn á íslensku sænsku og ensku og allur pakkinn.
Skarphéðinn var í essinu sínu. Söng manna hæst, stjórnaði pakkaopnuninni, át mesta köku - og fékk marsipanið af henni frá bæði Hrefnu og Per...
Tók reyndadr smá fýlukast yfir því að hann fengi engan pakka...
og sagði svo sannfærandi í morgun: "Það er komið sumar í dag", af því það var sko skýrt út fyrir honum að hann ætti afmæli næsta sumar.





Blessuð börnin

Hér eru afmælisgestir dagsins - öll börnin og Per, kærasti Hrefnu. Þegar Skarphéðinn átti að teikna mynd af fjölskyldunni sinni í leikskólanum um daginn hélt hann því staðfast fram að Per væri stóri bróðir hans!!! Einsog Hrefna er stóra systirin. Svo fóstrurnar spurðu mig hver þessi Per eiginlega væri.... :-)
Krúttið.


Tuesday, October 21, 2008

Afmælisbarn dagsins

Hér er mynd af afmælisbarni dagsins fyrir tæpum 43 árum..... :-)
Líkur Unni Sóldísi?

Monday, October 20, 2008

Pása

Skarphéðinn fær sér hér smá pásu hjá litlu systur. Sem liggur í gamla "babygyminu" hans.

Ástandið

Einar Már Guðmundsson skrifaði grein í Moggann á fimmtudaginn, og Egill úr Silfrinu birti hana líka. Mjög góð lýsing á Ástandinu á Íslandi.

Tuesday, October 14, 2008

Merkt snuð

Hún Unnur Sóldís pantaði sér snuddu uppúr blaði um daginn.... Hér: Namnnappen
:-)


Monday, October 13, 2008

Leikið og spriklað

Sunday, October 12, 2008

Unnur Sóldís - 3ja mánaða

Þá er dísin orðin 3ja mánaða. Og alltaf jafn ótrúlega yndisleg.... Róleg og góð, og maður kemst alltaf í gott skap við að sjá hana :-).

Nýtt uppáhald er að naga hendurnar - enda er maður rétt farin að hafa (smá) stjórn á þeim.






Saturday, October 11, 2008

Svona er þetta.

Ég er nú ekki vön að fjasa um þjóðmálin á þessu bloggi. Enda enginn sérlegur áhugamaður um þau eða sérfræðingur í þeim. Hef aðallega bara skjalfest dagleg ævintýri gríslinganna minna hér, en ég er einmitt sérlegur áhugamaður og sérfræðingur í þeim.

En…. Mikið er þetta sorglegt með stöðuna á Íslandi.
Heimurinn hefur umhverfst á nokkrum dögum. Ísland er rjúkandi rústir, nánast gjaldþrota, og orðspor íslendinga á við Nígeríumanna. Lánstraust í núlli, enginn gjaldeyrir til. Innflytjendur á Íslandi og kaupmenn njóta ekki lánstrausts erlendis og fá ekki afgreiddar vörur nema gegn staðgreiðslu – sem er erfitt þegar gjaldeyrir er ekki til. Vöruskortur mögulegur. Fólk er að hamstra nauðsynjavörur í búðum áður en þær hækka von úr viti í takt við lækkun krónunnar.

Það er hæðst að Íslendingum – eða okkur er í besta lagi vorkennt. Sumir vilja meina að það sé ekki söknuður að því orðspori sem Íslendingar hafa verið að vinna sér inn síðustu ár sem hrokafull þjóð kaupandi sér þjóðarstolt. Þó kannski skárra en staðan í dag, fátæk og vinafá þjóð, komin í skuldaklafa uppyfir axlir.

Síðustu dagar hafa verið viðburðarríkir dagar sem ritaðir verða í sögubækur. Ísland verður notað sem dæmi um hrun frjálshyggjunnar einsog Rússland um hrun kommúnismans.

Og ég skil ekki alveg hvernig við komumst í þessa skelfilegu stöðu. Kreppan og óhagstæðar aðstæður hafa jú sitt að segja, en þetta er líka afleiðing frelsisins sem víkingarnir fengu. Sem var tilraun sem endaði hræðilega. Víkingarnir bjuggu ekki til neitt, veðsettu það og tóku lán til að búa til meira af ekki neinu. Ferðuðust í einkaþotum og skruppu á þyrlunni til að kaupa pulsu einsog frægt er orðið og héldu fertugsafmæli fyrir 100 milljónir (ömurlega hallærislegir nýríkramanna stælar btw). Einn eftirpartýsreikningurinn er sá að Íslendingar eru komnir í þá stöðu að skulda fjölmörgum sparifjáreigendum Icesave í Englandi milljarða! Útibú Landsbankans. Sem Sigurjón Árnason fyrrverandi Landsbankastjóri kallaði Tæra snilld. Hvað hefði gerst ef bresku sparifjáreigendurnir hefðu verið 10 milljónir, en ekki 200 þúsund einstaklingar (sem mig minnir að þeir hafi verið). Skiptir kannski ekki öllu máli, við höfum hvorteðer ekki efni á að borga þetta. Og Gordon Brown forsætisráðherra Breta sparkar í Ísland liggjandi (í von um að bjarga fallandi fylgi heimavið) - og beitir hryðjuverkalögum á okkur, einsog ótínda glæpamenn.
Það er búið að ræna okkur ærunni.

Einhver komst svona að orði um Landsbankann: Hann stóðst heimstyrjaldir, bruna, kreppur, og verðbólgur, en bara 6 ára frelsi dauðans.

Ég er sorgmædd, leið og reið. Líður soldið einsog ég sé í ástarsorg yfir landinu mínu.

Og þetta allt er fyrir utan beinan efnislegan persónulegan skaða fólks. Sem fylgir gjaldþroti bankanna og verðlausri krónu. Margir hafa tapað öllu sparifénu sínu, eftir að hafa lagt þau inná „100% örugg peningabréf bankanna“. Við fjölskyldan áttum t.d. 400þús ísl. kr. inná peningabréfum Landsbankans sem við notuðum til að borga af námslánaskuldunum. Það voru bréf með lægstu áhættu, áhættustig 1 af 7 (miðað við ríkisskuldabréf sem hafa áhættustig 2 af 7) – eða skv. bankanum; algjörlega öryggir peningar. Svona bréf var fólki ráðlagt að hafa peningana sína í frekar en á reikningum – af því þá höfðu bankarnir aðgang að þeim. Þessir peningar virðast foknir útí veður og vind. En þetta er ekki neitt miðað við skaða annarra. Íslensk fjölskylda tiltölulega nýflutt hingað til Svíþjóðar tapaði nánast andvirði íbúðar sinnar á Íslandi á sama hátt. Einnig þessi aldni bóndi sem var ráðlagt að leggja aleiguna í bréf í Landsbankanum (söluvirði jarðar hans), og var sannfærður svo seint sem í síðustu viku um að peningarnir væru 100% öryggir. En á nú ekki fyrir leigunni í Búsetablokkinni.

Og svo allir þeir sem fastir í skuldaklafa erlendra lánanna sem hækka í takt við að krónan fellur. Erlendum lánum sem nú hafa tvöfaldast á innan við ári. Lánum sem var otað að fólki - til að sleppa við þá hengingarsnöru sem verðtrygging á íslensku lánunum er (en þeir valkostir!). Verðgildi eignarinnar fellur á meðan lánið og afborganirnar hækka og hækka. Afborganir hjá mörgum hafa hækkað um 100 – 150þús. Á mánuði. Helvíti framundan hjá mörgum einsog Bubbi orðar það.
Ekki skrítið þó talað sé um að koma á fót miðstöð fyrir áfallahjálp.

Ofan á þetta bætist atvinnuleysið sem óhjákvæmilega verður þegar allt dregst saman. Bara í bankakerfinu starfa 3.500 manns, sem líklega verður fækkað í 1.500 einsog ca. var áður en fjármálaævintýrið byrjaði.

En jæja.... nú er nóg komið af kvarti og kveini, ekki þýðir að einblína á það neikvæða, það hjálpar ekki neitt. Það eru jú erfiðir tímar framundan hjá Íslendingum, en það á eftir að þjappa þjóðinni saman. Mér heyrist þeir nú þegar vera fullir af baráttuvilja og orku einsog þeim einum er lagið, sem er einmitt það sem ég elska við þessa þjóð. Ef þetta skipbrot hefði orðið hér í Svíþjóð væri þvílíka volið og vælið í gangi... sem reyndar er á fullu í gangi hér, útaf uppsögnum sem eru í gangi útaf kreppunni.

Það er bara um að gera að reyna að sjá það kómíska í stöðunni, Baggalútur er t.d. góður í því. Hér er t.d. góð frétt um Nígeríusvikara sem eru mjög ósáttir við þróun mála og hrun íslensku krónunnar sem þeir stórtapa á.... Hjá þeim er líka frétt um að Seðlabanki Íslands fái Nóbelsverðlaun í hagfræði... Hi hi hi.... Glasið er aftur hálffullt. Og já ég er stolt af því að vera Íslendingur og ég elska þessa litlu skrýtnu þjóð sem alltaf þarf að vera soldið hálfgeggjuð. Það er partur af sjarminum.

Og svo ætla ég bara að blogga um gríslingana og prjónið og fótósjoppið og...
Það allt. Sem máli skiptir.

Randalín

Þá er hún komin. Af prjónunum. Hyrnan randalín, úr bókinni Þríhyrnur og langsjöl - mamman elskar hana! Svo heit og fín og íslensk, þjóðleg svona í rollulitunum. Úr loðbandi sem Ragga gaf mér - og Erla frænka gaf það sem á vantaði.
:-)


fótófótofótósjopp

Meira fótósjopp.
Hér er mynd af snúllunni sem er búið að:
Spegla: Image > rotate canvas > flip horisontally
Breyta lit á húfunni (og öðru): Nýtt layer í Hue/Saturation, Valdi "blátt", jók Hue, minnkaði saturation svo húfan varð bleik og brún.
Myndin er gerð svart-hvít: Nýtt layer í Hue/Saturation: saturation sett í núll.
Litur á húfuna málaður fram: Svartur litur valinn og málað yfir húfuna með brush tool þannig að liturinn komi fram. Ef maður litar út fyrir þannig að litur fyrir utan húfuna kemur fram er það málað aftur svart-hvítt með því að velja hvítan lit og málað með brush tool.


Tuesday, October 07, 2008

Rúsína

Bara smá fótósjoppuð; Aukin birta og aukin skerpa, annars natural bjútí :-)

Monday, October 06, 2008

Gaman...

Í dag fór mamman með öll börnin sín í utflykt - rosalega gaman :-). Fyrst fórum við í laaangan lunch í Mumma, kaffihúsinu í Roslags Näsby sem hún Angelica, vinkona Lóu á og rekur (og þar sem við Lóa og Begga lunchum 1x í viku). Það er sko mömmuvænt kaffihús! Fyrir minnstu börnin; Gluggar hálfan hringinn svo mömmurnar geti fylgst með gríslingunum í vagninum fyrir utan. Fyrir stærri börn: Leikherbergi fullt af dóti!!! OG sjónvarp með barnatíma í - ef mömmurnar leyfa (komnar á trúnó yfir lattenu, leikherbergið hætt að virka og vantar meiri tíma.... :-)) OG barnamatseðill t.d. með barnauppáhaldinu kjötbollum eða pönnukökum á 35kall. Og fyrir allra stærstu börnin: mums- mums matseðill - og öskubakki útá torgi.

Síðan fórum við á Mulle meck leikvöllinn, sem er bara róló - en með ferlega flottum leiktækjum úr Mulle meck bókunum (ókeypis inn!). Mulle er sko kall sem er alltaf að smíða alls konar; bíla og báta og geimför og hús, svo sniðugur...

Skarphéðni fannst svooo gaman.... bæði á Mumma og á Mulle meck-vellinum. Og við Hrefna áttum góðan tíma líka. Unnur Sóldís var einnig bara sátt, fékk sér sjúss hjá mömmu og lúr í vagninum til skiptis :-).

Ég var búin að sjá fyrir mér að ég myndi sko hitta Hrefnu oft í hádegismat í fæðingarorlofinu - en þetta var í fyrsta skiptið...
Enda er hún að vinna flesta daga, þessi elska. Er að vinna hjá ráðningarfyrirtækinu Q-work, sem mannar Åhléns verslunarkeðjuna, þannig að hún er að vinna í mismunandi Åhléns búðum hér í borg, við að afgreiða föt- snyrti- eða húsbúnaðarvörur o.þ.h. Er alltaf með dollaramerki í augunum nuförtiden, að reikna út hvað hún er búin að græða þessa vikuna... :-)
Þessi elska.


















Thursday, October 02, 2008

Framhaldslíf bols...

Ekki henda bolnum sem er orðinn of lítill, eða götóttur.... það má gera húfu úr honum ! :-)