Svona er þetta.
Ég er nú ekki vön að fjasa um þjóðmálin á þessu bloggi. Enda enginn sérlegur áhugamaður um þau eða sérfræðingur í þeim. Hef aðallega bara skjalfest dagleg ævintýri gríslinganna minna hér, en ég er einmitt sérlegur áhugamaður og sérfræðingur í þeim.
En…. Mikið er þetta sorglegt með stöðuna á Íslandi.
Heimurinn hefur umhverfst á nokkrum dögum. Ísland er rjúkandi rústir, nánast gjaldþrota, og orðspor íslendinga á við Nígeríumanna. Lánstraust í núlli, enginn gjaldeyrir til. Innflytjendur á Íslandi og kaupmenn njóta ekki lánstrausts erlendis og fá ekki afgreiddar vörur nema gegn staðgreiðslu – sem er erfitt þegar gjaldeyrir er ekki til. Vöruskortur mögulegur. Fólk er að hamstra nauðsynjavörur í búðum áður en þær hækka von úr viti í takt við lækkun krónunnar.
Það er hæðst að Íslendingum – eða okkur er í besta lagi vorkennt. Sumir vilja meina að það sé ekki söknuður að því orðspori sem Íslendingar hafa verið að vinna sér inn síðustu ár sem hrokafull þjóð kaupandi sér þjóðarstolt. Þó kannski skárra en staðan í dag, fátæk og vinafá þjóð, komin í skuldaklafa uppyfir axlir.
Síðustu dagar hafa verið viðburðarríkir dagar sem ritaðir verða í sögubækur. Ísland verður notað sem dæmi um hrun frjálshyggjunnar einsog Rússland um hrun kommúnismans.
Og ég skil ekki alveg hvernig við komumst í þessa skelfilegu stöðu. Kreppan og óhagstæðar aðstæður hafa jú sitt að segja, en þetta er líka afleiðing frelsisins sem víkingarnir fengu. Sem var tilraun sem endaði hræðilega. Víkingarnir bjuggu ekki til neitt, veðsettu það og tóku lán til að búa til meira af ekki neinu. Ferðuðust í einkaþotum og skruppu á þyrlunni til að kaupa pulsu einsog frægt er orðið og héldu fertugsafmæli fyrir 100 milljónir (ömurlega hallærislegir nýríkramanna stælar btw). Einn eftirpartýsreikningurinn er sá að Íslendingar eru komnir í þá stöðu að skulda fjölmörgum sparifjáreigendum Icesave í Englandi milljarða! Útibú Landsbankans. Sem Sigurjón Árnason fyrrverandi Landsbankastjóri kallaði Tæra snilld. Hvað hefði gerst ef bresku sparifjáreigendurnir hefðu verið 10 milljónir, en ekki 200 þúsund einstaklingar (sem mig minnir að þeir hafi verið). Skiptir kannski ekki öllu máli, við höfum hvorteðer ekki efni á að borga þetta. Og Gordon Brown forsætisráðherra Breta sparkar í Ísland liggjandi (í von um að bjarga fallandi fylgi heimavið) - og beitir hryðjuverkalögum á okkur, einsog ótínda glæpamenn.
Það er búið að ræna okkur ærunni.
Einhver komst svona að orði um Landsbankann: Hann stóðst heimstyrjaldir, bruna, kreppur, og verðbólgur, en bara 6 ára frelsi dauðans.
Ég er sorgmædd, leið og reið. Líður soldið einsog ég sé í ástarsorg yfir landinu mínu.
Og þetta allt er fyrir utan beinan efnislegan persónulegan skaða fólks. Sem fylgir gjaldþroti bankanna og verðlausri krónu. Margir hafa tapað öllu sparifénu sínu, eftir að hafa lagt þau inná „100% örugg peningabréf bankanna“. Við fjölskyldan áttum t.d. 400þús ísl. kr. inná peningabréfum Landsbankans sem við notuðum til að borga af námslánaskuldunum. Það voru bréf með lægstu áhættu, áhættustig 1 af 7 (miðað við ríkisskuldabréf sem hafa áhættustig 2 af 7) – eða skv. bankanum; algjörlega öryggir peningar. Svona bréf var fólki ráðlagt að hafa peningana sína í frekar en á reikningum – af því þá höfðu bankarnir aðgang að þeim. Þessir peningar virðast foknir útí veður og vind. En þetta er ekki neitt miðað við skaða annarra. Íslensk fjölskylda tiltölulega nýflutt hingað til Svíþjóðar tapaði nánast andvirði íbúðar sinnar á Íslandi á sama hátt. Einnig þessi aldni bóndi sem var ráðlagt að leggja aleiguna í bréf í Landsbankanum (söluvirði jarðar hans), og var sannfærður svo seint sem í síðustu viku um að peningarnir væru 100% öryggir. En á nú ekki fyrir leigunni í Búsetablokkinni.
Og svo allir þeir sem fastir í skuldaklafa erlendra lánanna sem hækka í takt við að krónan fellur. Erlendum lánum sem nú hafa tvöfaldast á innan við ári. Lánum sem var otað að fólki - til að sleppa við þá hengingarsnöru sem verðtrygging á íslensku lánunum er (en þeir valkostir!). Verðgildi eignarinnar fellur á meðan lánið og afborganirnar hækka og hækka. Afborganir hjá mörgum hafa hækkað um 100 – 150þús. Á mánuði. Helvíti framundan hjá mörgum einsog Bubbi orðar það.
Ekki skrítið þó talað sé um að koma á fót miðstöð fyrir áfallahjálp.
Ofan á þetta bætist atvinnuleysið sem óhjákvæmilega verður þegar allt dregst saman. Bara í bankakerfinu starfa 3.500 manns, sem líklega verður fækkað í 1.500 einsog ca. var áður en fjármálaævintýrið byrjaði.
En jæja.... nú er nóg komið af kvarti og kveini, ekki þýðir að einblína á það neikvæða, það hjálpar ekki neitt. Það eru jú erfiðir tímar framundan hjá Íslendingum, en það á eftir að þjappa þjóðinni saman. Mér heyrist þeir nú þegar vera fullir af baráttuvilja og orku einsog þeim einum er lagið, sem er einmitt það sem ég elska við þessa þjóð. Ef þetta skipbrot hefði orðið hér í Svíþjóð væri þvílíka volið og vælið í gangi... sem reyndar er á fullu í gangi hér, útaf uppsögnum sem eru í gangi útaf kreppunni.
Það er bara um að gera að reyna að sjá það kómíska í stöðunni, Baggalútur er t.d. góður í því. Hér er t.d. góð frétt um Nígeríusvikara sem eru mjög ósáttir við þróun mála og hrun íslensku krónunnar sem þeir stórtapa á.... Hjá þeim er líka frétt um að Seðlabanki Íslands fái Nóbelsverðlaun í hagfræði... Hi hi hi.... Glasið er aftur hálffullt. Og já ég er stolt af því að vera Íslendingur og ég elska þessa litlu skrýtnu þjóð sem alltaf þarf að vera soldið hálfgeggjuð. Það er partur af sjarminum.
Og svo ætla ég bara að blogga um gríslingana og prjónið og fótósjoppið og...
Það allt. Sem máli skiptir.
2 Comments:
Já, herregud, maður skyldi ávallt hafa í huga hvað það er sem raunverulega skiptir máli!
Hafa skyldi þó í huga að aldrei hefur fundist eitt sannt orð á síðunni www.baggalutur.is :)
Kveðja
Hjödda
Ég reyni bara að vera PollyAnna og reyna að finna eitthvað jákvætt í öllu volæðinu: kannski verður þetta til þess að Ísland gengur loksins í Evrópusambandið.
Post a Comment
<< Home