Monday, November 22, 2004

Eins og hvert annað hundsbit


Við fórum í 4. skiptið í ungbarnasundið í gær, og á dagskránni var að leyfa grislingunum að prófa að vera í kút, og að finna jafnvægi sjálf o.s.frv. Skarphéðni leist bara vel á það, en líst að öðru leyti svona semi-ágætlega á ungbarnasundið, er oft bara stífur eins og staur í - stað þess að sprikla og busla og kynnast vatninu. Tekur þessu kanski bara eins og hverju öðru hundsbiti...?
Við erum búin að æfa "köfun" í öllum tímunum, en Skarphéðinn kemur alltaf uppúr vatninu jafnhissa, með undrunar- og ásökunarsvip, en fer þó aldrei að væla. Kennarinn sagði við okkur að láta börnin kafa í mesta lagi 6 sinnum í hverjum tíma, en við erum í hræðslupúkafélaginu og köfum bara tvisvar í hverjum tíma....
Ég held semsagt að það verði seint sagt að Skarphéðinn sé "eins og selur". Og pabbi hans sem var svo handviss um að barnið væri með þetta í genunum, enda hann sjálfur mikill sundkappi, minnir reglulega á glæstan sigur sinn í 50 metra bringu í innanhúsmóti 4. deild Ægis árið 1977....
En þetta kemur vonandi með tímanum, ómögulegt annað en að venja barnið við vatn - við með allar þessar fínu sundlaugar á Íslandi!
Posted by Hello

1 Comments:

Blogger Erla said...

Flottur!!

4:41 pm  

Post a Comment

<< Home