Sunday, November 04, 2007

Allraheilagramessa

Já, allraheilagramessa er haldin hátíðleg í Svíþjóð. Það er hálfur frídagur á föstudeginum hjá flestum, og á laugardeginum fara allir með ljós í kirkjugarðana og minnast þeirra sem ekki eru lengur hér á meðal vor. Svo fara krakkarnir gjarnan í drauga- (eða reyndar allskonar)búninga, labba á milli húsa og fá nammi með því að hóta að hrekkja: "Bus eller godis!!" (trick or treat). Okkur tókst að tæma lagerinn af gömlu og hörðnuðu nammi lengst ofanúr skáp oní liðið í hverfinu.

Skarphéðinn fór í hrekkjarvökupartí á laugardaginn hjá Liam og Amöndu (sem er upp á dag jafngömul og Skarphéðinn). Liam er sonur Helene vinkonu, og Amanda er dóttir Ethel, systur Helene.

Skarphéðinn fór klæddur sem häxu-trollkarl einsog hann sagði sjálfur - eða sem galdrakarlanorn. Með kúst til að fljúga á og allt. Og þetta var nú skrítin samkunda. Allt fullt af nornum og beinagrindum og draugum og sjóræningjum og álfum og svo var einn geimfari og einn köttur. Allt svona lítið fólk einsog Skarphéðinn. Sem fékk pulsur og ís og nammi og fór í leiki og hlustaði á sögur.
En það var mikið fjör og mikið gaman.

Skarphéðinn var mest ánægður með nornahattinn og kústinn, trúði víst ekki að ég hefði virkilega keypt þetta handa honum því hann spurði nokkrum sinnum þennan dag: "Keypti sú setta handa mé?"

Hann hleypur alltaf beint að hillunni með plastsveðjum, öxum, galdrastöfum, eða kústum eða svoleiðis sem líkist barefli í dótabúðinni - en mamman hefur alltaf harðneitað að kaupa það (mest útaf hræðslu um eigin limi - drengurinn er alls ekki mjúkhentur).





0 Comments:

Post a Comment

<< Home