Thursday, February 17, 2005

Lengi lifi íslenska lopapeysan!


Aldrei situr hann iðjulaus þessi elska hann Skarphéðinn. Hann vill alltaf grípa í prjónana ef færi gefst (bókstaflega!). Hér er hann með ermi á verðandi lopapeysu - sem mamma (moi) ætlar að prjóna á sig.

Lopinn í hana er sko búinn að fara nokkrar ferðir fram og til baka til Íslands (eða næstum því). Ég gat nefnilega ekki ákveðið hvaða blæbrigði af rauðum og bleikum ég vildi hafa í henni....! Var búin að kaupa einu sinni litina í hana heima á Íslandi, dröslaði þeim aftur til baka í næstu ferð því þegar til Svíþjóðar kom uppgötvaði ég að þeir voru ekki "réttu" litirnir í meistaraverkið.... Núna lítur hins vegar út fyrir að ég geti farið að sofa rólega á nóttunni yfir þessu og að ekkert sé því til fyrirstöðu að ég geti dembt mér í að prjóna masterpísið því ég er sátt við litina sem eru n.k. burgundy rautt (eða uppá íslensku auðvitað - blóðmörs rautt) og fjólubleikt.

Ja, det var kanske bättre förr... þegar maður hafði ekkert val og þurfti því ekkert að standa í þessari vitleysu, því einu litirnir sem fengust voru bara naturell - rollulitirnir. Núna get ég reyndar fengið að kaupa íslenskan plötulopa hjá henni Höllu, (prjóna)vinkonu minni sem býr hér í Stokkhólmi og prjónar og selur lopapeysur. En það eru sko til fleiri lita-afbrigði í hespulopanum....

Ég á alveg nokkrar lopapeysur, en langar í svona aðsniðna eins og margir eru í núna (ungu píurnar - og svo ég :-) ho ho). Þær í Handprjónasambandinu eiga heiður skilinn fyrir að hafa komið hinni þjóðlegu lopapeysu í tísku aftur með því að hanna svona skemmtilega aðsniðna peysu. Gaman að sjá alla í lopapeysum aftur (og ekki bara M.H.inga eða líffræðingana.... :-) ).

En vissuð þið það að þetta séríslenska þjóðarstolt er bara eitthvað um 50 ára gamalt fyrirbæri ? En ekki frá landnámsöld eins og manni finnst þær næstum því hljóti að vera. En það gæti reyndar heldur ekki verið því prjónakunnáttan kom ekki til Íslands fyrr en á 17. öld.

Og uppruni lopapeysunnar er í raun ekki þekktur. Munstrið líkist bæði norsku skíðapeysumunstrunum, nema hvað þær voru ekki með heilt axlarstykki, og einnig sænskum peysum frá Bohuslän sem komu fram rétt fyrir 1950, og eru með heilt axlarstykki, en þær eru prjónaðar frá hálsmáli og niðrúr, en íslensku lopapeysurnar öfugt; neðan frá og upp (Þetta er fróðleikur sem ég fann í gömlum tímaritum Heimilisiðnaðarsambandsins; Hugur og hönd).

Jamm, það er greinilega dagur íslensku lopapeysunnar hjá mér og Erlu frænku í dag, kíkiði á bloggið hennar heute og fræðist meira um þetta fyrirbæri.... :-)

0 Comments:

Post a Comment

<< Home